Kynningarfundur þann 29. mars fyrir ferðina, meiri upplýsingar hér
Indland 7.-23. ágúst 2025
Við fetum í fótspor Jóns Indíafara og heimsækjum meðal annars Kalkútta og Rajasthan í norðri og Madurai, Pondicherry, danska virkið Tarangambadi í suðri auk þess að njóta sólarupprásar og sólseturs
á syðsta odda Indlands í Kanyakumari, þar sem Indlandshaf, Arabíuhaf og Bengalflói mætast
Mögulegt er að lengja ferðina og nota 5 auka daga til þess að stunda jóga og hugleiða í Auroville
Langar þig að kynnast indverskri menningu? Við erum að skipuleggja tveggja til þriggja vikna ferð til Indlands í ágúst í samvinnu við Welldone Travels. Indversk og íslensk fararstjórn. Í ferðinni verða einnig heimsótt barnaheimili og verkefni sem Vinir Indlands hafa styrkt í Tamil Nadu í gegnum árin.
Við höldum verðinu í lágmarki, ferðumst ábyrgt og styðjum við þar sem við getum.
Fararstjórar verða: Sólveig Jónas, Albert Ólafs, Dísa Guðmunds og indverski fararstjórinn okkar verður hinn dásamlegi John Amalraj hjá Tours with John.
Verð pr. mann í tveggja manna herbergi 720 þús.
Innifalið: Öll flug, hótel m/ morgunmat, skoðunarferðir og indversk og íslensk fararstjórn. Styrkur til barnaheimila og verkefna sem heimsótt verða, auk kostnaðar við kolefnisjöfnun.
Framlenging um 5 daga + 70 þús ( Auroville og Pondy - nudd, hugleiðsla og jóga)
Ferðin hentar líka fyrir stálpuð börn, á mörgum hótelum er hægt að bóka fjölskyldu herbergi.
Hótel sem við munum gista.
Jaipur Sarovar Jaipur Portico or Similar
Kolkata Hyatt Centric Ballygunge Kolkata or Similar
Madurai Heritage Madurai or Similar
Kanyakumari Annai Celestial Resorts or Similar
Ramanathapuram Fab Hotels or Similar
Tranquebar Neemrana's The Bungalow on the Beach or Similar
Pondicherry Hotel Promenade or Similar
Mahaballipuram Sea Breeze Beach Resort or Similar
Chennai Hotel Kalyan or Similar


Norður Indland, Jaipur - Rajasthan, Kalkútta
Flug frá Reykjavík 7. ágúst.
Jaipur, Rajasthan (2 nætur) Bleika borgin. Við gistum í tvær nætur, skoðum hallir, förum á bak úlfalda og kíkjum á útimarkað.
Kalkútta - (3 nætur) Iðandi mannlíf og fyrrum aðsetur Austur Indíafélagsins. Við munum heimsækja stærsta safn í Asíu, Indian Museum, dýfa tánum í Ganges, heimsækja heimili Móður Theresu og bragða á heimsþekktum Bengal-sætindum.
Flogið til Madurai í suðri í Tamil Nadu héraði miðju (3ja klst flug). Keyrt á hótel í Madurai.
Suður Indland, Madurai, Kanyakumari, Pondicherry og Auroville
Madurai (2 nætur). Borgin er þekktust fyrir óteljandi litrík hof. Við munum heimsækja það þekktasta , Meenakshi hofið, og njóta iðandi mannlífs í þessari litríku borg. Tamil-menningin er ólík öllu öðru, bragðmikill maturinn, litirnir og gestrisni fólksins.
Kanyakumari (2 nætur) Frá Madurai ökum við til Kanyakumari, sem er syðsti oddi meginlands Indlands. Þar mætast höfin þrjú; Arabíuhaf, Indlandshaf og Bengal-flói. Í Kanyakumari er hægt að upplifa heimsins fegurstu sólarupprás og sólsetur, skoða Thiruvallava-styttuna og Glerbrúna.
Mudukalahur - barnaheimili í Ramanatapuram. Við höldum áfram akandi og nú í norðvestur og heimsækjum barnaheimili sem Vinir Indlands hafa styrkt í fjölmörg ár og rekið er af hjónunum Rexline og Chinnamaratu. Við munum hitta heimafólk og börnin og upplifa indverska sveit, þar sem enga ferðamenn er að sjá. Gist verður eina nótt í Ramanatapuram. Hluti fargjaldsins er styrkur til heimilisins og þannig geta ferðalangar látið gott af sér leiða.
Tranquebar - Danska virkið. (1 nótt). Við ökum áfram í norður og stoppum til að skoða Danska virkið sem danir byggðu 1620 og Jón okkar Indíafari dvaldi í á árunum (1622-1624). Virkið er næst stærsta virki Dana og stendur á fallegum stað við ströndina.
Pondicherry. Eftir eina nótt í Tranquebar keyrum við upp til Pondicherry, þar sem við munum gista í 3 nætur. Pondy er er fyrrum frönsk nýlenda og vinsæll ferðamannastaður Indverja. Við munum gista á hóteli við ströndina, njóta þess að dýfa tánum í Indlandshafið, fá fílinn Sally til að blessa okkur og rölta á markaðinn. Í Pondy má jafnvel finna franskt bakarí.
Mahaballapurum Á leið okkar til Chennai, þaðan sem við fljúgum heim, munum við stoppa í Mahaballapurum og skoða ægifögur hof og steinskúlptúra sem reistir voru á áttundu öld. Við gistum þar í nágrenninu og keyrum þaðan til Chennai.
Chennai er stærsta borg Tamil Nadu og þaðan fljúgum við heim til Íslands. Við gistum eina og nótt og kannski verður tími til að kíkja í búðir eða markað.
Flug frá Chennai til Reykjavíkur 23. ágúst
Aukadagar 22-26. ágúst
Pondycherry - Auroville. Fyrir þau sem vilja framlengja ferðina bjóðum við upp á 5 daga jóga og hugleiðslu upplifun í hinu einstaka þorpi Auroville, sem byggt var á sjöunda áratugnum og hefur vaxið síðan. Að þeim dögum liðnum munum við aka til Chennai sömu leið og lýst er hér að ofan.

