Indland • 16.–30. janúar 2026 (Gæti breyst lítils háttar)
Ævintýraferð um fjölbreytta indverska menningu – frá norðri til suðurs
Langar þig að kynnast indverskri menningu í allri sinni fjölbreytni? Komdu með okkur í ævintýraferð þar sem við njótum bæði mannlífs og náttúru – og látum jafnframt gott af okkur leiða. Við ferðumst frá norðri til suðurs, um stórborgir og smáþorp, strendur og teræktarhéruð. Meðal annars heimsækjum við barnaheimili sem Vinir Indlands hafa stutt við í áratugi.
Norður-Indland: Delhi • Jaipur • Agra • Taj Mahal • Darjeeling
Delhi
Ferðin hefst í höfuðborg Indlands, Delhi þar sem við fáum leiðsögn og fræðslu um indverska matargerð og menningu. Við skoðum líka borgina sjálfa, markaði, hof og hallir.
Gist í 2 nætur.
Gullni þríhyrningurinn
Frá Delhi ökum við hinn svokallaða gullna þríhyrning: Delhi – Jaipur – Agra, þar sem hið óviðjafnanlega Taj Mahal stendur. Þetta svæði hefur um aldir verið eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna á Indlandi.
Gist í 1 nótt í Jaipur og 1 nótt í Agra.
Darjeeling
Þaðan fljúgum við til Darjeeling sem þekkt er fyrir terækt, fjallgarða og sögulegt hlutverk sem sumarleyfisstaður breskra embættismanna. Við kynnum okkur teframleiðslu og förum í ferð með hinni frægu Darjeeling Himalayan Railway.
Gist í 2 nætur.
Suður-Indland: Chennai • Mahabalipuram • Pondicherry • Tranquebar • Ramanathapuram • Madurai
Chennai og Mahabalipuram
Við fljúgum til Chennai, stærstu borgar Tamil Nadu og gistum þar í eina nótt áður en við ökum suður með austurströndinni. Við skoðum fjölda hofa, þar á meðal þau frægustu í Mahabalipuram með skúlptúrum frá 8. öld. Svæðið er á heimsminjaskrá UNESCO.
Pondicherry
Því næst liggur leiðin til Pondicherry. Þar ríkja enn áhrif franska nýlendutímans og andrúmsloftið er líflegt og litríkt. Við gistum á hóteli við ströndina, slökum á, göngum á markaði, fáum blessun frá fílnum Sally og smökkum jafnvel franskt bakkelsi. Fyrir áhugasama býðst einnig að upplifa jóga eða hugleiðslu í Auroville, sem stofnað var á 7. áratugnum.
Gist í 3 nætur.
Tranquebar
Á leiðinni suður heimsækjum við hið sögulega danska virki Tranquebar (byggt 1620), þar sem Jón Indíafari dvaldi árin 1622–1624.
Gist í nágrenninu eina nótt.
Ramanathapuram
Næsta stopp er barnaheimilið Mudukalahur í Ramanathapuram, rekið af hjónunum Rexline og Chinnamaratu og stutt af Vini Indlands. Þar fáum við að hitta börnin og upplifa indverska sveit þar sem fátt er um ferðamenn. Hluti fargjaldsins rennur beint sem styrkur til heimilisins.
Madurai
Lokaáfangastaður er Madurai-borg sem fræg er fyrir fjölda litríkra hofa. Við heimsækjum hið þekktasta, Meenakshi-hofið, og njótum iðandi mannlífs.
Gist í 2 nætur áður en haldið er heim.
Hagnýtar upplýsingar
Fararstjórar: Sólveig Jónas, Albert Ólafs og indverski fararstjórinn okkar, hinn dásamlegi John Amalraj hjá Tours with John.
Verð: 760.000 kr. á mann (miðað við tvo í herbergi)
Innifalið: Öll flug, hótel með morgunverði, skoðunarferðir, íslensk og indversk fararstjórn, styrkur til barnaheimila, kolefnisjöfnun.
Gisting: Alls staðar á góðum 4 stjörnu hótelum.
Samgöngur: Loftkældar rútur.
Veður: Í norðurhluta Indlands má búast við um 20°C (í Darjeeling um 15°C). Í suðurhlutanum 20–30°C.
Við leggjum áherslu á að halda verðinu í hófi, ferðast á ábyrgan hátt og styðja við samfélögin sem við heimsækjum.



