Kenía - Tansanía - Sansibar Júní 2025


Hópurinn lenti í Naíróbí þann 8. júní, þar sem dvalið var í 3 nætur á Ibis Styles-hótelinu. Fyrsta daginn var farið í heimsókn í National Museum í Nairobi, þar sem skoðað var ýmislegt tengt sögu og menningu Kenía, m.a. beinagrind Lucyar, sem er gjarnan litið á sem formóður mannkyns, en beinagrind hennar fannst í Kenía. Næsta dag heimsótti hluti hópsins Sheldrick Wildlife Trust, sem er staður fyrir munaðarlausa fílsunga og á sama tími heimsótti annar hluti Haven-heimilið, þar sem Anna Þóra Baldursdóttir rekur heimili fyrir táningsmæður og börn þeirra. Síðar sama dag heimsótti hluti hópsins annað heimili fyrir ungar stúlkur, en það er rekið af Tracey Kadada, tónlistar- og baráttukonu. Þar fékk hópurinn m.a. kennslu í afrískum dönsum, en nokkur munur var á mjaðmahreyfingum Íslendinga og innfæddra, öllum til gamans. Þriðja daginn var farið í heimsókn í Little Bees-skólann í Naíróbí sem Vinir Kenía og Tansaníu hafa stutt í áratugi. Þar var tekið vel á móti hópnum sem fékk að kynnast skólastarfi í talsvert mikið öðruvísi aðstæðum en Íslendingar eiga að venjast. Um kvöldið var farið á danssýningu, Cat’s Dance Show, þar sem einnig var í boði að bragða kjöt af ýmsum dýrum sem er ekki í boði á hverjum degi, eins og krókódílum o.fl.

Þá lá leiðin til Mwanza í Tansaníu, með viðkomu á Kilimanjaro-flugvellinum. Dvalið var á hótel Tilapia við Viktoríuvatnið og einnig gist þar í þrjár nætur. Hluti hópsins fór í ökuferð með leiðsögn um Mwanza á meðan annar hluti gekk um bæinn. Næsta dag var farið í heimsókn í Hakizetu-miðstöðina, þar sem hópurinn fékk kynningu á starfseminni og tekin voru mál af ferðalöngum fyrir skyrtur, kjóla og fleiri flíkur, en þar er rekin starfsþjálfunarmiðstöð fyrir ungar stúlkur sem eru að læra að sauma. Flíkurnar voru svo afhentar daginn eftir. Næsta dag var hópurinn sóttur af rútu og ekið sem leið lá í skóla, þar sem framkvæmt hafði verið fræðslu- og trjáræktarverkefni, en það er í samvinnu Vina Kenía og Tansaníu, Nourish Africa og skóla í nágrenni Mwanza. Verkefnið fór af stað í febrúar, fyrir regntímabilið, og fengum við að sjá árangur þess, auk þess sem barnahópur hélt danssýningu með hefðbundnum afrískum dönsum. Síðar um daginn fór hópurinn út á Sanaane-eyju, sem er í um 7 mínútna siglingu frá hótelinu og er minnsti þjóðgarður í Tansaníu. Þar gekk hópurinn um eyjuna á meðal ýmissa villtra dýra.

Að morgni 14. júní komu þrír safarí jeppar og eftir kynningu fararstjóra var haldið af stað í safarí. Gist var í 2 nætur í tjöldum í Kirimu Camps og ekið um stórfengilegan Serengeti-þjóðgarðinn á slóðum The Great Migration, þar sem má sjá þúsundir dýra á ferðinni á leið norður á bóginn. Síðan var haldið áfram í átt að Ngorongoro-gígnum, með viðkomu í masaíaþorpi og gist á Octagon Lodge. Daginn eftir var ekið niður í magnaðan gíginn, þar sem finna má ótrúlega fjölbreytt dýralíf. Eftir það var ekið til Arusha og gist á Mvuli-hóteli.

Eldsnemma að morgni 18. júní var flogið frá Kilimanjaro-flugvelli til Sansibar. Þar tóku við 3 nætur á Shooting Start Boutique-hótelinu við hvítar strendur sem eiga varla nokkurn sinn líka. Sum fóru í snorkling, kryddferðir eða gerðu eitthvað annað sér til dundurs. Fjórðu nóttinni var síðan varið í Mizingani Seafront-hótelinu í Stonetown, sem er suðupottur evrópskra, afrískra og arabískra áhrifa, áður en flogið var af stað heim á leið.

Úr ferðinni kom samtals 992.000 kr. til verkefna, sem skiptist þannig:
Haven Rescue Home: 100.000 kr.
Tracey Kadada Home: 56.327 kr.
Little Bees School: 167.242 kr.
Vatnsborun í Tansaníu: 768.431 kr.

Tansanía og Sansibar, Safarí o.fl.
20. feb. - 5. mars, 2025

Tansanía og Sansibar, Safarí o.fl. 20. feb. - 5. mars, 2025


Þann 20 febrúar var flogið frá Keflavíkí gegnum Osló og Dubai, til Mwanza í Tansaníu. Á leiðinni til Mwanza var millilent í Dar es Salaam og þar sem talsverður tími var á milli fluga skrapp hópurinn í Slipway-miðstöðina, til að fá smá sýnishorn af borginni. Á bakaleiðinni fór bílstjórinn út af hraðbrautinni til að forðast umferðarteppu og hópurinn fékk nasasjón af því hvernig fátækari hluti borgarinnar býr.
Í Mwanza var gist á Hotel Tilapia sem stendur við Viktoríuvatnið. Daginn eftir komuna til Mwanza heimsótti hópurinn bækistövar Hakizetu, samstarfsaðila Vina Kenía og Tansaníu (hakizetu.org) og fékk kynningu á starfsemi þeirra. Hópurinn pantaði skyrtur og kjóla hjá saumaskólanum sem þar er rekinn, til að styðja við ungar stúlkur sem hafa hrakist úr skólakerfinu og voru flíkurnar svo afhentar daginn eftir. Einnig heimsótti hópurinn skóla og hratt af stað verkefni, ásamt öðrum samstarfsaðilum Vina Kenía og Tansaníu, Nourish Africa (https://nourishafrica.org/). Verkefnið felst í gróðursetningu nytjatrjáa við skólann, ásamt því að Nourish Africa fræðir nemendur um ýmislegt sem varðar loftslagsmál og gróður. Seinni deginum í Mwanza var varið í göngu um borgina, ásamt því að fara í siglingu út á vatnið, í kringum eyjar í nágrenninu.
Að morgni 24. mars kom safarí-jeppi og sótti hópinn, sem lagði af stað inn í Serengeti-þjóðgarðinn. Á milli þess að aka um og skoða villt dýr, gisti hópurinn tvær nætur í tjöldum og upplifði ýmis dýrahljóð í nóttinni. Frá tjöldunum var svo ekið í norður og að lokinni gistingu í lodge var ekið niður í hinn magnaða Ngorongoro-gíg, þar sem finna má mjög fjölbreytilegt dýralíf. Á þessum dögum tókst hópnum að sjá „The Big Five“: Fíl, hlébarða, buffal, ljón og nashyrning, auk fjölda annarra dýra.
Þann 28. febrúar var flogið frá Kilimanjaro-flugvelli til Sansibar, þar sem hópurinn slakaði á við hvíta ströndina á Karibu Beach Resort í þrjár nætur, heimsótti „Spice Farm“ og svo var einni nótt varið í Stone Town, hinum gamla sjarmerandi suðupotti arabískrar, evrópskrar og afrískrar menningar. Að morgni 4. mars tók hópurinn ferju yfir til Dar es Salaam og flaug þaðan heim á leið.


Hluti ferðakostnaðar rann til verkefna í Tansaníu og skiptist eftirfarandi:
Heildarinnkoma: 360.000 kr.
Trjáræktarverkefni: -148.955 kr.
Vatnsborunarverkefni við Mwaliga Primary School: -211.045 kr.


Tansanía og Kenía

Samstöðuhlaup gegn kynbundnu ofbeldi

23. nóvember til 2./6. desember 2024

Samstöðuhlaup gegn kynbundnu ofbeldi er framtak sem má rekja til samstarfs Vina Kenía og Tansaníu á Íslandi og Hakizetu-samtakanna í Mwanza, Tansaníu. Eitt af helstu verkefnum Hakizetu er barátta gegn kynbundnu ofbeldi, og hugmyndin var að bjóða íslenskum konum að koma og hlaupa með tansanískum konum í táknrænu hlaupi til að vekja athygli á þessu mikilvæga málefni. Hlaupið fór fram á alþjóðlegum dögum gegn kynbundnu ofbeldi, sem haldnir eru árlega frá 25. nóvember til 10. desember. (https://www.who.int/campaigns/16-days-of-activism-against-gender-based-violence).

Átakið er líka hluti stærra verkefnis sem átti sér stað sömu daga: Heimsherferð fyrir friði og andofbeldi (https://en.theworldmarch.org/) sem fór fram í Afríku á sama tíma.

Eftir að fleiri samtök lýstu yfir áhuga á átakinu var ákveðið að hlaupa ekki aðeins í Mwanza, heldur einnig í Nairobi og Kisumu í Kenía og ljúka þeim á Íslandi.

23. nóvember: Flogið var frá Íslandi til Naíróbí í Kenía.
24.-25. nóvember: Naíróbí borg skoðuð: Karen Blixen-safnið, masaí markaður, o.fl.
26. nóvember: Fimm kílómetra hlaup gegn kynbundnu ofbeldi í Naíróbí ásamt kenískum þátttakendum. Heimsókn til Önnu Þóru sem er með Haven Rescue Home. Þar sem tánings stelpur frá 12-18 ára sem eru orðnar mæður búa. Á heim­il­inu fá þær þann stuðning sem þær þurfa, hvort sem það er stuðning­ur til náms, sál­fræðiaðstoð eða annað. .
27. nóvember: Flogið frá Naíróbí til Kisumu, heimsóttum embættiskonur sem kynntu aðgerðaráætlun um fjölgun athvarfa o.fl á svæðinu.
28. nóvember: Fimm kílómetra ganga gegn kynbundnu ofbeldi í Kisumu ásamt kenískum þátttakendum. Farið var í gegnum það hverfi sem flestum tilfellum um kynbundið ofbeldi er beytt. Tekið þátt í dagskrá þar sem hin ýmsu samtök kynntu sig og sína starfssemi. Svo var ekið að landamærum Kenía og Tansaníu. Þar bauð maður sem hafði hlotið menntun sem var styrkt frá Íslandi, heim til sín í mat og vildi sýna húsið sitt sem hann byggði sjálfur. Sagði okkur sögu sína um hvernig hann man eftir því að íslendingar hafi komið í heimsókn í skólann sinn tuil að gefa styrki til náms þegar hann var um 6 ára. Svo var gist við landamærin.
29. nóvember: Ekið til Mwanza (Rock City) keyrðum framhjá Serengeti. Á leiðinni sáum við hin ýsmu dýr, fílahjörð, Gnýi og Antilópur. Gistum á fallegu hóteli við Viktoríuvatnið.
30. nóvember: Fimm kílómetra hlaup gegn kynbundnu ofbeldi með tansanískum og kenískum þátttakendum, hlaupið var í gegnum hverfið með flestum tilfellum af kynbundnu ofbeldi er beytt. Dagskrá og viðurkenningar gefnar eftir hlaupið. Svo eftir eina sýninguna sem kyrkislöngur voru með í einu atriðinu, þá tók allur íslendingahópurinn sig saman og hélt á kyrkislöngu ásamt heima manni fyrir mynd.
1. desember: Afslöppun í Mwanza með val um afþreyingu, farið var í verslunarferð á götumarkaði, heimsótt bakarí sem var stofnað sem starfsþjálfun fyrir konur, siglt yfir til Saanane-eyju, lítill þjóðgarður.
2. desember: Flogið til Sansibar, gist á glæsilegu butique hoteli í 3 nætur á ströndinni, þar sem þrífættur apaköttur sem heitir Coco var búin að koma sér fyrir á og vingaðist við íslendingana. Síðastu nóttinni var eytt í Stone Town og flogið heim þaðan 6. desember með millilendingu í Naíróbí.

Einn heimsþekktasti langhlaupari sögunnar, hljóp með!

Tegla Lourupe heimsþekktur maraþon hlaupari frá Kenía tók þátt í öllum Samstöðuhlaupinum.

Hún er alþjóðlegur friðarsendiherra UN Women.  

Úr hlaupasögu Teglu má nefna sigur hennar á Goodwill leikunum árin 1994 og 1998 þar sem hún hljóp erfiðan 10 km sprett berfætt. Aðeins 21 árs gömul vann hún New York maraþonið árið 1994 og endurtók sama afrek árið 1995. Á árunum 1997 til 1999 vann hún Rotterdam maraþonið þrisvar sinnum í röð og varð þar með ein af fremstu langhlaupurum 20. aldar. Önnur maraþon sem hún hefur unnið eru meðal annars: London maraþon, Rómarmaraþon, Lausanne maraþon, Kölnar maraþon, Leipzig maraþon og Hong Kong maraþon auk fjölda hálfmaraþona og langhlaupa víðsvegar um heiminn. 

Árangur hennar felur einnig í sér heimsmet í 20 km, 25 km og 30 km hlaupum sem og heimsmet í maraþoni (42 km). 

Eftirfarandi samtök voru þátttakendur* í þessu verkefni:

Ísland:

Múltikúlti sjálfboðaliðamiðstöð
Vinir Kenía og Tansaníu
Stígamót
Kvennaathvarfið
Bjarkarhlíð
Bjarmahlíð

Kenía:

Tegla Lourupe Peace Foundation
Community Engage nairobi
Praise Liberation Ministries
Waste Free 23 Ngong
Tracey Kadada Empowerment Community Based Tana Delta
Peace Building Tana River
Manyatta Youth Resource Center
Emmanuel Football Team Rwanda

Tansanía:

Hakizetu
Nourish Africa
Women Action on Eco Health
and Legal Rights
Tawawami Children Project
Tuungane Survivors Women Group

Tengill: multiferdir@gmail.com

WhatsApp: +354 8996570

Hlaupastjóri:

Vigdís Guðmundsdóttir


Kenía - Tansanía, júní 2024

Ferðin hófst með flugi frá Íslandi til Naíróbí í Kenía þann 15. júní, þar sem gist var í þrjár  nætur. Þar fór hópurinn á danssýningu og fékk sér kvöldverð, þar sem í boði voru als kyns framandi réttir. Þar fyrir utan gerði hópurinn ýmislegt sér til dundurs í Naíróbí, heimsótti Karen Blixen-safnið og fékk tíma í kenískum dansi í heimsókn hjá ungri kenískri hugsjónakonu, heimsótti National Museum, fór á Masaí-markað, heimsótti gíraffagarð og naut útsýnisins frá TV-Tower. Að lokum var Little Bees-skólann í Mathare-hverfinu heimsóttur, en þar höfðu verið mikil flóð skömmu áður og starfsemi skólans, sem Vinir Kenía á Íslandi hafa stutt í áratugi, í talsverðu uppnámi.
Síðan var ekið sem leið lá yfir landamærin til Arusha í Tansaníu og gist eina nótt, áður en flogið var til Mwanza-borgar, við strönd Viktoríuvatnsins.
Í Mwanza var gist á Hotel Tilapia í þrjár nætur. Þar var m.a. farið í heimsókn í starfsþjálfunarmiðstöð samstarfsaðila Vina Kenía og Tansaníu, þar sem mörg úr hópnum pöntuðu sér afrískar skyrtur og kjóla, sem nemendur miðstöðvarinnar saumuðu og færðu hópnum næsta dag. Þar á eftir hélt hluti hópsins áfram og heimsótti annan skóla þar sem verið var að byggja nýja salernisaðstöðu sem hópurinn greiddi fyrir og svo er einnig fyrirhugað að bora þar eftir vatni á næsta ári. Daginn eftir var farið í heimsókn í skóla þar sem skoðað var trjáræktarverkefni sem hópurinn studdi. Í skólanum var tekið á móti hópnum með trumbuslætti og dansi.
Að morgni fjórða dags komu þrír safarí-jeppar og sóttu hópinn í 4 daga safarí um Serengeti- og Ngorongoro-þjóðgarðana, og endað í Ngorongoro-gígnum, þar sem finna má þúsundir dýra. Í safarí-ferðinni var gist í tjöldum og “lodge”, sem var mikil upplifun fyrir þátttakendur.
Eftir einnar nætur gistingu í Arusha var svo flogið til Sansibar þar sem hópurinn slakaði á við ströndina, fór í bátsferð, ásamt því að skoða fjölbreytt mannlífið í Stone Town, fara á kryddmarkað o.fl.
Þann 29. júní var svo flogið af stað aftur heim. 

Hluti ferðakostnaðar rann til verkefna í Kenía og Tansaníu og skiptist eftirfarandi:

Heildarinnkoma: 1.205.000 kr.

Trjáræktarverkefni*: -281.095 kr.

Little Bees-skólinn: -190.821 kr.

Salerni við Mwaliga Primary School: -488.860 kr.

Til vatnsborunarverkefnis 2025**: -244.224 kr.

 

*Verkefnið var unnið í samvinnu við Nourish Africa og nemendur í þremur skólum, Mawa Matatu Secondary School (sem var heimsóttur), Mwabebea Secondary School og Ntende  Secondary School, þar sem gróðursett voru tré við skólana. Verkefnið fól líka í sér fræðslu til nemenda um loftslagsbreytingar og trjárækt, auk þess sem nokkrir nemendur voru gerðir ábyrgir fyrir að hlúa að trjánum og halda þeim á lífi.

**Fyrirhugað er að bora eftir vatni við Mwaliga Primary School í upphafi næsta árs.